- Prótein
Líklega er ekki til sá grænkeri sem ekki hefur verið spurður: „En hvaðan færðu prótein? Það er bara hægt að fá prótein úr dýraafurðum er það ekki?” Þessi misskilningur er algengur, en einnig áhugaverður þar sem próteinskortur fyrirfinnst varla í hinum þróaða heimi. Við þurfum að vera virkilega vannærð til að þjást af próteinskorti, og þar sem plönturíkið býður upp á gríðarlegt magn af næringarríkum mat, erum við sem borðum fjölbreytta vegan fæðu í lítilli sem engri hættu. Dæmi um próteinríka fæðu úr plönturíkinu eru baunir, tófú og aðrar sojavörur, kínóa, bókhveiti, möndlur, hnetur og fræ, brokkólí, og áfram mætti lengi telja.
- Mjólkursýra
Mjólkursýra sem finna má í matvöru er vegan. Mjólkursýra (e. lactic acid) inniheldur ekki mjólk. Mjólkursýra verður til með gerjun á sterkju og sykri. Lakkrís inniheldur t.d. oft mjólkursýru og á fólk til að forðast þetta innihaldsefni nafnsins vegna.
- Snefilmagn
Svipað og með mjólkursýruna hefur orðið snefilmagn oft ruglað fólk í ríminu. Það að vara geti innihaldið snefilmagn af t.d mjólk, eggjum og/eða fiski þýðir alls ekki að varan innihaldi þessi hráefni. Sé vara framleidd á stað þar sem vörur með þessum algengu ofnæmisvöldum eru framleiddar er það skylda framleiðandans að taka það fram. Þannig getur t.a.m. innihaldslýsing á hummus, sem að öllu jöfnu inniheldur aðeins örfá hráefni, gefið til kynna að finna megi fisk, hnetur, mjólk og egg í snefilmagni. Þetta eru upplýsingar sem gagnast fólki með bráðaofnæmi en veldur vegan fólki almennt ekki hugarangri.
4. Kalk
Auglýsingar mjólkurframleiðenda hafa lengi talið fólki trú um að mjólkurvörur séu eina uppspretta kalks í fæðu. Sem betur fer er þetta alls ekki satt. Það er gríðarlegt magn af kalki í plöntufæði, t.d. úr laufgrænu grænmeti, hnetum og fræjum, heilkornavörum og kalkbættri jurtamjólk og jógúrti. Vegan fólk þarf alls ekki að óttast beinþynningu frekar en annað fólk.
5. Vegan matur er bragðlaus og leiðinlegur
Þessi misskilningur er sem betur fer ekki jafn algengur í dag og fyrir nokkrum árum. Þú getur útbúið vegan útgáfu af öllum eftirlætis (áður ó-vegan) réttunum þínum. Þegar fólk stígur fyrstu skrefin í vegan mataræði opnast gjarnan margar nýjar dyr í matargerð. Maður kynnist fullt af nýjum kryddum og hráefnum og óvæntum leiðum og aðferðum í eldamennsku. T.d. virkar vökvi úr kjúklingabaunadós eða fernu nákvæmlega eins og eggjahvíta í margar uppskriftir, og með honum geturðu útbúið gómsæta lakkrístoppa sem bragðast nákvæmlega eins og upprunalega uppskriftin. Hellirðu sojamjólk, eplaediki, olíu og sinnepi í blandara færðu dýrindis mæjónes sem er frábært eitt og sér sem meðlæti, en virkar líka fullkomlega sem grunnur í allskonar kaldar sósur eins og aoli, kokteilsósu, hamborgarasósu, sinnepsósu og remúlaði. Við erum alltaf að læra hvað dýraafurðir eru óþarfar og hvað maturinn úr plönturíkinu býður uppá mikla möguleika.