Bjartur föstudagur

Hjá okkur í Vegan búðinni eru engin myrkvuð föstudagstilboð í gangi. Ástæðan er sú að við getum ekki með góðri samvisku tekið þátt í tilboðssprengju sem hefur þann tilgang að fá sem flest fólk til að kaupa sem mest. Sannleikurinn er sá að við vonum að engin kaupi hjá okkur óþarfa í dag eða aðra daga. Okkar markmið er að bjóða upp á góða valkosti sem auðvelda fólki að velja neysluvörur sem valda minni skaða en aðrar og þannig stuðla að sífellt bættri neysluhegðun fjöldans.

Fyrir sum er það ef til vill framandi hugmyndafræði að eiga og reka verslun sem ekki vill selja sem mest af sem flestu og nota til þess alla heimsins hvata. Í okkar heimi er það hins vegar okkar lágmarks skylda að búa hvorki til né uppfylla gerviþarfir, heldur bjóða upp á vöruval sem líklegt er til að auðvelda fólki að draga úr neikvæðum áhrifum neyslu sinnar. Eins og okkur verður sífellt ljósara eigum við jarðarbúar ekki lengur innistæðu fyrir heljarinnar allsnægtum heldur þurfum við öll að líta í eigin barm hið snarasta og leita hamingjunnar annars staðar en meðal dauðra hluta.

Við höldum því uppi þögulum mótmælum gegn nýjasta neyslukapphlaupsdeginum með því að bjóða engin tilboð heldur bara sama sanngjarna verðið og við gerum venjulega þó við munum án efa bjóða upp á gagnleg tilboð á ýmsum vörum síðar.

Opnunartími verslunar

Alla daga frá kl.10:00 - 20:00

Heimilisfang

Faxafen 14, 108 Reykjavík

Sími

7793600

Netfang

veganbudin@veganbudin.is

Styrkir