Hvað er joð?

Joð er steinefni sem líkaminn notar í snefilmagni við myndun skjaldkirtilshormóna.

Áhrif joðs í líkamanum

Þurrkaður þari er ríkur af joði

Þekkt virkni joðs í líkamanum er við nýmyndun skjaldkirtilshormóna. Joðskortur er algengur víðsvegar í heiminum og þá helst hjá ungum börnum og óléttum konum. Alvarlegasta afleiðing joðskorts eru þroskaskerðingar barna þeirra kvenna sem hafa liðið skort á meðgöngu. Í raun er það helsta orsök almennrar þroskaskerðingar sem hægt er að koma í veg fyrir. Þetta hefur reynst mikill hvati útum allan heim í baráttunni við að útrýma joðskorti. Goitre er sjúkdómur sem tengist joðskorti og veldur mikilli bólgu á skjaldkirtli og er oft landlægur sjúkdómur í þeim löndum þar sem joðskortur er algengur. Enn frekar getur skortur haft áhrif á afdrif fóstra og nýbura, frjósemi, starfsemi skjaldkirtils og þroskafrávik.

Hvernig fáum við joð?

Mataræðið okkar og fæðan sem við veljum eru helstu uppsprettur joðs fyrir líkamann. Jarðvegurinn hefur einnig nokkur áhrif, þ.e. hvort hann sé ríkur eða snauður af joði. Mörg lönd hafa farið þá leið, að tilmælum World Health Organisation (WHO), að joðbæta allt salt sem notað er til manneldis, hvort sem það er borðsalt eða salt í dýrafóður. Þetta er þó ekki framkvæmt á Íslandi og þurfa því Íslendingar að vera meðvitaðir um það hvar joð er að finna í mataræðinu. Þetta á ekki síður við um íslenska grænkera.

Ráðlagður dagskammtur (RDS) samkvæmt Embætti Landlæknis eru 150 µg fyrir konur og karla. Fyrir þungaðar konur er RDS 175 µg og 200 µg fyrir konur með barn á brjósti.

Nýjar rannsóknir á Íslandi hafa sýnt það að barnshafandi konur og konur með barn á brjósti eru ekki í öllum tilfellum að fá nægjanlegt magn af joði.

Joðrík matvæli

Það er ekki til ein auðveld leið til að segja til um magn joðs í plöntum þar sem það er breytilegt eftir jarðvegi. Þang og þari eru yfirleitt rík af joði en geta þó innihaldið of mikið af joði og sumar tegundir gætu verið mengaðar. Af þessum ástæðum má deila um ágæti þeirra sem joðuppsprettu nema vel sé að gætt.

Eitt og hálft til tvö nori blöð (sushi blöð) gætu vel gefið ráðlagðan dagskammt af joði en er þó oft alls óvíst um joð innihald slíkra vara. Kelp er yfirleitt ríkt af joði en varast ætti að neyta of mikils af nori og kelp vegna sveiflna í joðinnihaldi þeirra.

Plöntumjólk sem er með viðbættu joði er góð uppspretta fyrir grænkera og vert er að leita að „potassium iodide“ eða „iodazed salt“ í innihaldslýsingu. Eins og er, eru ekki margar mjólkurafurðir úr plöntum með viðbættu joði.

Kartöfluhýði er ríkt af joði

Trönuber, sérstaklega þau sem eru ræktuð nálægt sjó, geta verið rík af joði. Best er að velja lífrænan trönuberjasafa sem inniheldur engan viðbættan sykur. Pintóbaunir innihalda einnig joð og selen sem hjálpast að við að viðhalda eðlilegri virkni skjaldkirtils. Hýðið af kartöflum inniheldur joð ásamt öðrum næringarefnum og trefjum. Gott er að skola hýðið vel ef það er ætlað til neyslu.

Þeir einstaklingar þar sem mataræði inniheldur ekki ofangreindar fæðutegundir ættu að huga að því að taka inn joð sem fæðubótarefni og þá helst frá uppsprettu sem er með öruggt innihald joðs. Konur á barnseignaraldri, þungaðar og með barn á brjósti ættu í flestum tilfellum að taka joð inn sem fæðubótarefni.

Hættur við eitrun

Myndun og losun skjaldkirtilshormóna er yfirleitt vel stjórnað í gegnum kerfi í líkamanum sem gerir honum kleift að aðlaga sig að joð inntöku einstaklingsins. Flestir þola inntöku joðs allt að 1 mg (1000ug) á dag. Það ber þó að varast skyndilega aukningu á inntöku joðs hjá næmum einstaklingum, þ.e. þeim sem hafa verið við langvarandi joðskort. Við slíkar aðstæður getur líkaminn farið í ástand sem er kallað joð örvuð offramleiðsla skjaldkirtils. Dæmi um þetta hafa sést í þeim löndum þar sem salt og fleiri matvæli hafa skyndilega fengið viðbætt joð. Þessi sjúkdómur er líklegastur á meðal aldraðra og þeirra sem hafa áður verið í vandræðum með starfsemi skjaldkirtilsins.

Samantekt

Bæði of mikið og of lítið joð getur verið skaðlegt líkamanum og þroska fóstra. Joð er mikilvægt fyrir framleiðslu og myndun skjaldkirtilshormóna sem stuðla að réttum vexti og þroska. Grænkerar, og fleiri, þurfa að vera vel vakandi fyrir því hvar þeir fá joð úr fæðunni, þar sem salt er ekki joðbætt á Íslandi, og ef þeir eru ekki að fá joð reglulega úr fæðunni að taka það inn sem fæðubótarefni. Þetta á sérstaklega við um þungaðar konur og þær sem hafa börn á brjósti.

 

Að lokum er rétt að nefna að fjölbreytt og heilnæmt fæði er ein besta vörn líkamans gegn hinum ýmsu sjúkdómum ásamt reglulegri hreyfingu og góðum svefnvenjum.

 

Þessar vörur frá Veganbúðinni innihalda joð í einhverju magni:

Together vegan vítamín:

Oatly barista

Greinin er unnin af Guðrúnu Ósk Maríasdóttur
B.Sc í næringarfræði
M.Sc í matvælafræði
Maí 2019

Opnunartími verslunar

Alla daga frá kl.10:00 - 20:00

Heimilisfang

Faxafen 14, 108 Reykjavík

Sími

7793600

Netfang

veganbudin@veganbudin.is

Styrkir