En er ekki svo dýrt að vera vegan?

Það eru mörg sem spyrja sig að þessari spurningu áður en þau verða vegan. Þegar ég tók mín fyrstu skref í veganisma árið 2017 þá spurði ég sjálfa mig að því sama, en komst svo að því að raunin var allt önnur. Vissulega getur verið dýrt að vera vegan, alveg eins og það getur verið dýrt að vera ekki vegan, allt fer eftir lifnaðarhætti og lífsstíl hvers og eins. En það er mjög einfalt að eyða litlu í matarkaup sem vegan, gott fyrir veskið, gott fyrir heilsuna, gott fyrir umhverfið og frábært fyrir dýrin.

Grænmeti og ávextir, góð vísa er aldrei of oft kveðin, svo ég mun segja það enn og aftur að grænmeti og ávextir eru eitthvað sem meirihluti fólks borðar ekki nóg af. Þegar ég hef þurft að eyða sem minnstu í mat hafa mínir bestu vinir verið kartöflur, bæði venjulegar og sætar, laukur, gulrætur, tómatar og bananar til að nefna eitthvað. Kartöflur og flest rótargrænmeti er ódýrt og aðgengilegt allan ársins hring, og hægt að nota á allskonar vegu, steikja, baka, mauka í súpur, skera í kássur, búa til franskar, gratín og þar fram eftir götunum. Eitt af því sem ég nýti mér virkilega oft er einfaldlega að skera niður kartöflur í strimla og velta uppúr olíu, salt, pipar og smá cayenne pipar, eða einfaldlega því sem hjartað girnist hverju sinni. Þetta borða ég oft bara með tómatssósu eða vegan kokteilsósu og salati. Einnig eru frosnir ávextir og grænmeti eitthvað sem er virkilega vanmetið. Mörg halda að það sé næringarminna að nota það frosið, en það er ekki þannig. Oftast nær er þessi matvara fryst þegar hún er á besta þroska stigi og þar með næringarríkust, svo endilega fylltu körfuna af frosinni ferskvöru! Einnig má kaupa grænmeti/ávexti á seinasta séns á afslætti og frysta, það geri ég óspart!

Nú að öðru sem mörg hafa áhyggjur af, prótein. Ég er persónulega ekki mikið fyrir kjötlíki, þar sem ég var aldrei mikil kjötmanneskja, en baunir eru dásamleg fæða og eru til í allskonar formum, litum og nota má þær á ýmsa vegu. Baunir eru eins og tómur strigi málarans og má nota í nánast hvað sem er. Auk þess að vera stútfullar af próteini, þá eru baunir einnig svakalega trefja, járn og kalkríkar! Ég nota baunir flesta daga, uppáhaldið mitt er að nota svartar baunir í burritos/tacos, eða krydda kjúklingabaunir og rista í ofni þar til þær eru stökkar, einstaklega ljúffengt í t.d. gott salat, pítu eða vefju með grænmeti og hummus! Baunir er ódýrast að kaupa þurrar og leggja í bleyti sjálft og sjóða en það er ekki fyrir öll, svo ég mæli með að eiga alltaf 1-2 dósir upp í skáp, til vonar og vara! Hins vegar er einfalt að sjóða mikið magn af baunum og frysta svo í skömmtum, það er mikill tímasparnaður í því falinn og einstaklega þægilegt þegar man gleymir sér, þá þarf bara að afþýða skammtinn í örbylgjuofninum og búmm þú ert komið með próteingjafa í máltíðina! 

Hrísgrjón, hafrar, kínóa, bygg, pasta og fleiri heilkorn eru einstaklega ódýrar matvörur, og má elda í smá magni og nýta í nokkra daga. Ég hef oft gripið á það ráð að sjóða slatta af kornvöru, baunum og skera niður allskonar grænmeti og setja í box inní kæli, svo næ ég mér bara í skál og set það sem mig langar í hverju sinni í skálina og bæti svo við einhverju góðu eins og t.d. hummus, salsa, Jömm sósu, hot sauce, eða set innihaldið í vefju! Kornvörur, og þá sérstaklega heilkornavörur eru einstaklega góður orkugjafi, þær eru trefjaríkar og oft próteinríkar, svo endilega fáðu þér nóg af þeim! Ég persónulega elska að fá mér hafragraut í morgunmat. Hafragrautur er eitthvað sem ég tel skelfilega vanmetið, flest hugsa um Oliver Twist þegar þau hugsa um hafragraut, en með smá slettu af hnetusmjöri, plöntumjólk, sýrópi og ávöxtum eða berjum er þetta dýrindis máltíð! Uppáhalds blandan mín er að hræra útí grautinn hnetusmjör og hlynsýróp, setja svo banana úta og smá af dökkum súkkulaðidropum, mmm… Annar kostur við kornvörur er að þær geymast líka svo lengi, þótt þær séu komnar fram yfir seinasta söludag. Ég er nánast viss um það að þegar dómsdagur mætir á jörðina mun ekkert standa eftir nema kínóapokinn sem er búinn að vera uppí skáp hjá þér síðan 2015. 

Ég mæli einnig með að fylgjast vel með á síðum einsog “Síðasti séns!” á Facebook, þar er sett inn ef einhver spottar matvöru á afslætti eða gefins. Oft er þannig hægt að birgja sig upp af einhverju nytsamlegu og frysta. 

Mér finnst gott að taka 1-2 daga í viku þar sem er “nýta úr skápunum/kælinum” dagur. Þá er ekki eldað sérstaklega þá daga heldur er nýtt það sem til er svo ekki þurfi að henda neinu eða fara og versla í eitthvað. 

Það er auðvitað klassískt að gera líka matseðil og versla fyrir vikuna, en það hentar ekki öllum. Það hentar mér t.d. ekki. Í staðinn kaupi ég í 4-5 hluti sem ég get eldað yfir vikuna og hef það frjálst hvenær ég hef hvað, og ef eitthvað kemur uppá, t.d. að ég spotti mikið af einhverju á afslætti eða sé að ég þarf að nýta eitthvað upp heima, þá breyti ég og aðlaga planið að því. Ég hef ekki hent mat heima hjá mér í einhver ár með því að nýta mér þetta. 

Einnig tel ég mjög mikilvægt að skoða vel í alla skápa og frysti áður en er verslað. Áttu dós af kókósmjólk uppí skáp sem er búin að vera þar í 2 mánuði? Kannski að kaupa karrýmauk og græja indverskt dahl til að nýta það? Áttu mikið af grænmeti á seinasta séns? Skelltu í súpu og hvítlauksbrauð! 

Gangi ykkur öllum vel í Veganúar 2022! 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Save my name, email, and website in this browser for the next time I comment.

Opnunartími verslunar

Alla daga frá kl.10:00 - 20:00

Heimilisfang

Faxafen 14, 108 Reykjavík

Sími

7793600

Netfang

veganbudin@veganbudin.is

Styrkir