Fólk á það til að misskilja veganisma og halda að hann sé megrunarkúr, trúarbragð eða tískufyrirbæri. Eins er það algengur misskilningur að þau sem eru vegan neiti sér um allt sem gott þykir og ákveði því að fórna eigin lífsgæðum dýranna vegna; að okkur þyki dýrin mikilvægari en við mennirnir.  Þetta gæti eiginlega ekki verið meira fjarri sanni. Í þessari grein ætla ég því að fara aðeins yfir það hvað veganismi er og hvers vegna ég mæli með því að gerast vegan.

image7

Hvað er veganismi?

Þau sem aðhyllast vegan lífsstíl líta svo á að það sé siðferðislega óréttlætanlegt að nýta dýr og dýraafurðir til matar, afþreyingar, þæginda eða einfaldlega af vana. Við reynum því eftir fremsta megni að forðast að valda óþarfa þjáningu. Það þýðir m.a. að við borðum ekki dýr eða afurðir þeirra, notum ekki fatnað eða snyrtivörur úr dýraafurðum og förum ekki í dýragarða, sirkus eða á aðra viðburði þar sem dýr eru notuð til afþreyingar. Mörgum gæti e.t.v þótt þetta heldur yfirþyrmandi þegar ég lista einfaldlega upp hluti sem veganfólk gerir ekki, en það að vera vegan þýðir ekki að við lifum við meiri skort en aðrir, eða að lífið okkar sé litlaust og fullt af takmörkunum. Við lifum nákvæmlega eins lífi og annað fólk; höldum matarboð, förum í ísbíltúr, borðum yfir okkur af kökum og kræsingum í afmælisveislum og grillum borgara og pylsur á sumrin. Það hefur aldrei verið jafn auðvelt að vera vegan eins og í dag og lífið þarf ekki að breytast mikið þó þú gerist grænkeri. Úrvalið af vegan mat er orðið gríðarlega mikið og fjölbreytt og það er í rauninni hægt að gera gómsætar vegan útgáfur af öllum algengum og vinsælum réttum. Eins er mikið úrval af góðum og vönduðum vegan fatnaði, snyrtivörum, hreinlætisvörum o.fl. sem við notum í okkar daglega lífi.

Af hverju að gerast vegan?

Fyrr á tímum var kjöt nauðsynlegt til að lifa af kaldan veturinn. Fólk varð að veiða sér til matar og gera allt sem það gat til að lifa af. Sá raunveruleiki á lítið skylt við þann sem við lifum í dag, og jafnvel allra síst hér á landi. Fólk sem lifði á þessum erfiðu tímum kom ekki við í bílalúgunni í næstu sjoppu á leið heim til að kaupa sér pulsu og kók eða rölti inn í matvöruverslun og keypti sér nokkrar kryddaðar kótilettur til að skella á grillið með félögunum. Eins varð fólk að útbúa sín eigin föt og ekki var í boði að sitja tímum saman og skoða erlendar netverslanir í von um að finna hina fullkomnu flík fyrir næstu árshátíð. Við semsagt lifum svo vel í dag að geta valið hvað við borðum, hvaða föt og snyrtivörur við kaupum, hvaða afþreyingu við kjósum og hvað við notum til að þrífa heimilin okkar.

Með bættum lífsgæðum hefur orðið auðveldara að loka augunum fyrir því hvaða áhrif neyslan hefur á heiminn, umhverfið og okkur sjálf. Við búum í heimi sem krefst þess að við lokum augunum þegar kemur að neyslu og framleiðsluháttum. Við borðum meira, kaupum meira af allskonar dóti sem við oft höfum lítil not fyrir, og við þurfum lítið að spá í því hvaðan varan kemur eða hvaða ytri áhrif hún hefur. Við lítum á okkur sem þróaða dýrategund sem auðveldlega greinir milli þess sem er rétt eða rangt. Með árunum höfum við breyst mikið, og höldum áfram að breytast, þróast og þroskast. Við fordæmum ýmislegt sem taldist manninum eðlislegt hér áður fyrr og berjumst fyrir því að fólk hætti að beita hvert annað ofbeldi og mismunun. Við erum loksins að læra það að fólk er allskonar og á að fá að vera allskonar. Það er nefnilega ekkert svo langt síðan við áttum erfitt með að fagna fjölbreytileikanum og vildum geta sett allt fólk í sama kassann. Við lærum semsagt af mistökum og viljum gera betur. Á sama tíma erum við alin upp við að loka augunum fyrir því gríðarlega ofbeldi sem maðurinn beitir dýrum og umhverfi okkar. Við lærum ung að þykja vænt um gæludýrin okkar á sama tíma og við þegjandi og hljóðalaust borðum það sem sett er á diskinn okkar, án þess svo mikið sem hugsa hvað við erum að borða og hvort það sé nauðsynlegt.

 

Við getum ekki endalaust litið til baka og hugsað að fyrst við þurftum að borða kjöt fyrir hundrað árum hljóti það að vera nauðsynlegt í dag. Lífið okkar á lítið skylt við lífið sem fólk lifði á þessum tíma. Ef við yrðum spurð myndum við fæst vilja skipta um stað og tíma og lifa lífinu eins og langafi og langamma gerðu þegar þau voru ung. Okkur finnst fínt að geta horft á Netflix, spjallað auðveldlega við vini og vandamenn sem búa hinum megin á hnettinum og pantað okkur pizzu þegar við nennum ekki að elda. Það er því furðulegt að við teljum okkur þurfa að borða sama mat og borðaður var á þessum tíma. Við höfum endalaust val af næringarríkum og góðum mat, á sama tíma og úrvalið af fatnaði og öðrum vörum er yfirdrifið nóg. Með því að gerast vegan mótmælum við því ofbeldi sem á sér stað um allan heim. Með því að hætta að kaupa dýraafurðir hættum við að taka þátt í ofbeldinu, því á meðan við sköpum eftirspurn þá erum við að taka þátt. Ef við neyddumst til að horfast í augu við það sem á sér stað svo við getum keypt dýraafurðir held ég að við myndum flest velja annan kost. Við verðum að opna augun og hætta að láta mata okkur án þess að vita í rauninni hverju er verið að stinga upp í okkur.

image8

Hvernig gerist ég vegan?

 • Byrjaðu á því að afla þér upplýsinga.
  • Heimildarmyndir eru frábær byrjun, auk þess sem gríðarlegt magn er til af greinum og bókum. Það er þó alger óþarfi að demba sér í margra daga lestur, en það er oft gott að fá smá upplýsingar, þó það sé ekki nema nokkrar greinar eða heimildarmynd.
 • Lærðu að lesa innihaldslýsingar.
  • Það er alls ekki eins erfitt og það hljómar, en það getur tekið smá stund að læra þau nöfn sem dýraafurðir ganga oft undir. Aftur á móti þarftu bara að læra hvert nafn einu sinni og þá manstu það. Mjólk, egg og fiskur eru svo hráefni sem oftar en ekki eru merkt með feitletruðum stöfum.
 • Skiptu úr dýraafurðum og finndu vegan útgáfur af því sem þér þykir gott.
  • Við lifum svo vel í dag að það eru til ýmsir staðgenglar fyrir dýraafurðir. Mjólk, matreiðslurjómi, þeytirjómi, jógúrt, ostur, rjómaostur, sýrður rjómi, pylsur, hamborgarar, hakk, naggar, kjúklingabitar, skinka, pizzur og ís eru dæmi um matvörur sem auðveldlega er hægt að skipta út fyrir gómsætar vegan vörur.
 • Veganismi snýst ekki um að vera fullkominn.
  • Þegar þú tekur ákvörðun um að gerast vegan er ekki þar með sagt að þú eigir að sópa öllu dótinu þínu ofan í svartan ruslapoka, keyra með það á haugana og kaupa svo vegan útgáfu af öllu. Kláraðu að nota það sem þú átt. Þú gerir engum greiða með því að henda öllu snyrtidótinu þínu og kaupa þér nýtt. Þú einfaldlega notar það sem þú átt fyrir og getur svo tekið ákvörðun um að kaupa vegan vörur þegar hitt er búið.